Thursday, April 20, 2006

ÞVOTTAVÉLAKARMA IIII !!!

Gerði mér vonir um að næst gæti ég tuðað um eitthvað annað. Eftir 30 þúsund króna reikning frá þvottavélaverkstæðinu áttum við mæðgin 3 ljúfar vikur; við skiptum þvottavélinni bróðurlega á milli okkar og heimilislífið minnti á þvottaefnisauglýsingu (hér kemur tónlist). Létt á fæti valhoppuðum við upp kjallarastigann með bastkörfur fullar af hreinum sokkum og nærbuxum. Staflar af hreinum þvotti tóku við af fjöllum af óhreinum þvotti og við undum okkur sæl við að raða í fataskápana og vorum alltaf hrein og snyrtileg til fara. Þar til eitt kvöldið að ég kem heim og ætla að taka úr vélinni sem ég setti í þá um morguninn. Er ég kem niður kjallarastigann heyri ég ógnvænlegt hljóð. Þetta hlýtur að vera vél nágrannakonunnar að þeytivinda, hugsa ég með mér? En það er ekki um að villast, þetta er Hotpoint tryllitækið búið að vera að þeytvinda í 10 tíma samfleytt. Á tölvuskjánum gefur að líta grunsamlega errorkoda og það eina sem ég gat gert var að taka vélina úr sambandi svo hún hætti. Það er ekkert restart á þessari vél og hún hefur verið dauð síðan.....
Nú er mér allri lokið!! Ég er komin með þvottavélaþunglyndi á háu stigi og hef ekki dug í mér til að hringja í viðgerðarmann. Sem betur fer komu páskar með tilheyrandi boðum hjá vinum og ættingjum. Ég er hætt að mæta með rauðvínsflöskur eða blóm í boð, núna kem ég bara með fulla Hagkaupspoka, dreg húsmæðurnar afsíðis og spyr örvæntingafull; ekki mætti ég setja í eina vél hjá þér meðan við borðum?