Friday, January 26, 2007
Músagangur
Í fréttum er það helst að ég er búin að segja upp íbúðinni og ætla að búa í pappakassa um óákveðinn tíma. Allt stefnir í að hetja hafsins verði meira og minna á sjó næstu mánuði og því tilvalið að spara aðeins og greiða upp yfirdráttinn. Flutningarnir ganga svona á heildina séð vel og ég hef sett mér það markmið að vera framvegis naumhyggjumanneskja á veraldlega sviðinu. Þetta hefur kostað nokkuð margar ferðir til Sorpu s.l. daga og hefur skósafn mitt t.a.m. skroppið saman um 20 pör eða svo –og er ég bara alsæl með þessa nýju stefnu í lífinu. Það eina sem hefur valdið einhverju hugarangri í þessu ferli er hvimleiður músagangur á háaloftinu. Rakst á eina steindauða í fyrradag! Mér var nokkuð brugðið og flýtti mér að hvolfa yfir hana skókassa. Í gær var Inga vinkona svo að sækja veraldlegar eigur sínar uppá loft hjá mér, gleymdi viðvörunarorðum mínum í öllum látunum og henti skókassanum útá mitt gólf –með músinni! Þegar við áttuðum okkur á því voru góð ráð dýr því hvorug okkar treysti sér til að fjarlægja músina og því síður að athafna okkur við kassaflokkun í félagsskap hennar og hugsanlegra systra sem gætu skotist sprelllifandi uppúr hvaða kassa sem. Eftir nokkurn æsing yfir málinu urðum við sammála um að hringja í Björn vin okkar og fá hann til að fjarlægja músina svo við gætum haldið áfram að losa háaloftið. Björn var nú ekkert sérlega vel fyrirkallaður en varð þó við bón okkar enda karlmenni mikið og alltaf riddari þegar konur eru í nauð staddar. Björn kom skömmu síðar við annan mann (konu) 12 ára dóttur sína og héldu þau samstundis hugdjörf uppá loft að fást við vágestinn. Komu fljótt aftur niður með bros á vör og leikfangamús í skókassa!!!!!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment