Wednesday, April 18, 2007

Sól

Vaknaði í morgun og það var vor í lofti.... Fyrsta vorið í sjö ár sem ég er ekki lokuð inni yfir prófum og lokaverkefnum! Blómin í garði nágrannans eru farin að gægjast upp úr grárri moldinni og mig klægjar í garðyrkjufingurna, ætla kannski að bæta við mig nokkrum fósturgörðum –ef þið vitið um einhvern sem er að bugast yfir garðinum –þá er ég á lausu! Annars helst í fréttum að ég er á leiðinni heim til Valencia sem nokkrum völdum Kramhúskonum í húsmæðraorlof! Erum komnar með íbúð á besta stað í Port Saplaya með svalir útá Miðjarðarhafið.......Það er komið alvöru sumar þar!

Thursday, April 05, 2007

Helgidagar

Loksins brast á með langþráðu páskafríi. Bróðir minn og mágkona skelltu sér í heimsókn til Öldu systur og voru búin að ræða það við mig með löngum fyrirvara að ég mundi rétta foreldrum mínum hjálparhönd með litla drenginn, guðson minn. Ég hef verið síðustu daga að setja mig í frænkustellingar tilbúin að fara á róló og fara í eltingarleik og hlakkaði satt að segja bara soldið til. Við borðuðum öll saman í gærkvöld og að því búnu kvöddu bróðir minn og frú við lítinn fögnuð þess litla. Hann jafnaði sig fljótt í ömmufangi og fór svo að sofa. Ég var svo tilbúin að fara á róló snemma í morgun. "Eigum við að fara á róló Daníel"? -NEI. Ha???! Viltu ekki koma á róló?!! NEI.
Ég lét það sem vind um eyru þjóta að honum litist ekki rólóferðina, klæddi hann og dröslaði honum út. "Þú átt bara eftir að fatta hvað það er gaman með Öglu frænku á róló"! ! NEI.
Hann horfði á mig með þegjandi vandlætingu meðan ég setti hann í kerruna og þagði rólóferðina á enda, sama hvort við róluðum, renndum okkur eða mokuðum í fötu! Hann sýndi smá samskiptavilja við að fara í vettlingana þegar honum var orðið kalt en að öðru leiti sýndi hann mér þegjandi fyrirlitningu. Að lokum fattaði ég að þetta var EKKI gaman svo við fórum bara aftur inn til ömmu. Hann klifraði sjálfur upp alla fimm stigana á ótrúlegum hraða m.v. að hver trappa er jafnhá öllum fótleggnum á honum og var greinilega að flýja til ömmu eins hratt og fætur toguðu! Samskiptin hafa verið mjög einföld það sem eftir er dagsins, það er alveg sama hvað ég segi eða geri. Hann segir bara NEI og labbar í burtu. Ég er með höfnun!!!!