Sunday, November 02, 2008

Atvinnuleysi Dagur 2

Líkamsklukkan er enn vel stillt á sunnudagsmorgni og ég komin á fætur hálfsex, læðist um íbúðina eins og þjófur í myrkrinu og stelst til að hita mér expressó af sterkari gerðinni.
Einar, Karen og Daníel Máni komu í mat í gærkvöld og eftir að þau voru farin geispuðum við "gömlu hjónin" yfir íslensku fréttunum á netinu og fórum snemma að sofa. Það er alveg merkileg að vera með 40 sjónvarpsstöðvar og það er aldrei neitt í sjónvarpinu! Ég horfi oft öfundaraugum á dagskrárliðina sem ég sé að eru eftir fréttir á RÚV en eru ekki sendir út á netinu. Það er annars nýtilkomið að við fylgjumst svo náið með fréttum að heiman, ég les líka allar fréttasíðurnar og fylgist með bloggskrifum um nýjustu fréttir. Maður er með hálfan hugann á Íslandi þessa dagana!
Kreppan var aðalumræðuefni matarboðsins i gær og voru skoðanir skiptar um það hvort ríkisstjórnin ætti að víkja strax. Það er nú kannski bara til þess fallið að auka á uppnámið að fara að skipta um stjórn meðan "Húsið" stendur enn í björtu báli en hitt er svo annað mál að ríkistjórnin hefur til þessa ekki sýnt fram á að henni sé treystandi fyrir björgunarstarfinu. Það er lítill hugarléttir fyrir þjóðina á þessum tímum að hafa stjórn sem stendur sig verr en "fólk valið af handahófi úr símaskránni" mundi gera
-svo vitnað sé í viðfræg orð hins bandaríska prófessors. Einhver bloggarinn sagði viðbrögð ríkisstjórnarinnar vera fumkennd og einkennast af leynimakki, hroka og útúrsnúningum og ekki er annað hægt en að vera sammála því. EN HVAÐ MEÐ VIÐBRÖGÐ ÞJÓÐARINNAR? Þrælslundin í íslendingum er slík að þorri þjoðarinnar situr þegjandi og hljóðalaust undir því að allt að 10% landsmanna séu að missa atvinnu, að húsnæðislánin rjúki uppí himnháar upphæðir meðan eignir falla í verði, að seðlabankinn sé gjaldþrota og skuldlaust þjóðarbúið sé skuldsett kynslóðir fram í tímann. Það er undarleg forgangsröðun í aðgerðum stjórnarinnar, þeir voru ekki lengi að afgreiða nýju bílana úr landi enda nauðsynlegt að ekki tapist verðmæti þar! En það virðist ekkert liggja á að afnema verðtrygginguna sem tikkar hratt þessa dagana og bitnar á flestum heimilum í landinu! Það myndi m.a. bitna á lífeyrisjóðunum eru rökin. Mín kynslóð verður dauð úr fjárhagsáhyggjum löngu áður en við náum að nýta okkur þessi lífeyrisréttindi og kannski allt í lagi að kynslóðin sem fékk húsnæðið og námslánin nánast gefins búi við skert lífeyrisréttindi. Það á að koma til móts við fólk í fjárhagörðuleikum segja ráðherrar en á sama tíma fáum við fréttir af því að hrægammarnir hjá siðlausum innheimtufyrirtækjunum sýni meiri hörku en nokkurn tíma fyrr. Fyrirtæki sem eru n.b. nú að hluta í eigu ríkisins! Fólk sem ennþá er í aðstöðu til að semja um eitthvað er beitt gengdarlausu fjárhagslegu ofbeldi en þeir sem eru svo ógæfusamir að vera þegar lagstir á hliðina eru stimplaðir vanskilaseggir og í þá má sparka liggjandi að vild samkvæmt íslenskum lögum!
HVERS VEGNA ER EKKI FLEIRA FÓLK Á GÖTUM ÚTI AÐ MÓTMÆLA???? Hér í Kaupmannahöfn var einni félagsmiðstöð lokað og það logaði allt í mótmælum vikum saman. Á Íslandi mættu rúmlega 1000 manns í mótmælagöngu í gær. Eru hin 300 þúsundin bara ósköp sátt við þetta allt saman? Eða sitja þau bara heima og horfa með skömmustu á flatskjáinn? Hvar er allur mannfjöldin sem við sjáum á þjóðhátíðum? Það er sagt að hver þjóð fái þá ríkistjórn sem hún verðskuldar og það virðist því miður eiga við um okkur. Þrælslundin er enn sú sama og í síðustu kreppu; VIÐ GETUM EKKI, ÞORUM EKKI og VILJUM EKKI!

No comments: