Saturday, January 31, 2009

Helgarfrí og pólitík

Loksins kom langþráð helgarfrí og ég mátti sofa út. Líkamsklukkan vakti mig kl.7:30 eða um leið og birta tók. Síðan ég flutti hingað er ég laus við þennan stöðuga svefndrunga og slen sem hefur hrjáð mig árum saman. Veturinn hér er dimmur og oft kaldur en þessi smávægilegi birtumunur virðist gera herslumuninn og svo hefur vissan um vor á næsta leiti auðvitað heilmikið að segja
andlega.
Það er annars lítið að frétta. Sótti um nokkrar aukavinnur í vikunni og vona að það komi eitthvað útur því. Þetta eru örfáir tímar á viku sem mig vantar til að ná endum saman og vera komin með ígildi fullrar vinnu. Ég vona bara það besta og reyni að halda ró minni –reynslan hefur sýnt mér að danir eru ekkert að flýta sér við mannaráðningar og hafa oftar en ekki samband þegar maður er alveg búin að gleyma því að hafa sótt um. Hér er enn einhverja vinnu að fá ef maður er ekki of vandlátur. Það virðist vanta mikið af leikskólakennurum, sjúkraliðum og kokkum en það er miklu minni eftirpurn eftir ófaglærðu fólki í hin ýmsu störf en var fyrir ári síðan. Það er nokkuð um uppsagnir hér en fréttir og spár af “finanskrísunni” eru sitt á hvað heyrist mér, ýmist er hún rétt að byrja eða alveg að verða búin! En fasteignamarkaðurinn hér er við frostmark og eignir falla í verði. Íbúðin sem við búum í er til sölu og það hafa komið svona 1-2 að skoða vikulega og þykir gott. Vinur minn býr í söluíbúð í öðru hverfi og það hefur engin komið að skoða hana mánuðum saman.
Yfirveðsetning, hærri vextir og óhófleg neyslulán eru farin að ógna hag margra og nú er svo komið að danir eru að opna rágjafarstofu um fjármál eða eins og þeir segja “Skadestue” sem einnig þýðir “slysavarðsstofa” ég gat ekki annað en brosað þegar ég heyrði þá frétt! Það á að taka þetta föstum tökum segja þeir. Hér er það ekki liðið að fólk sé með of háa greiðslubyrgði og nái ekki endum saman.
Ég fór í “skattavesenið” (Annað orð sem er bráðskemmtilegt i beinni þýðingu) um daginn til að fá aðstoð við að telja fram skuldir mínar á Íslandi því ég á eftir því sem ég kemst næst, rétt á vaxtabótum hér. Blessuð konan, sem afgreiddi mig, hélt fyrst að ég hlyti að vera eitthvað að misskilja hversu stór hluti afborgananna væru vextir og þegar mér loks tókst að sannfæra hana um að ég skildi þetta allt rétt krossaði hún sig bara í bak og fyrir! Verðbæturnar voru ekki einu sinni teknar til greina enda óskiljanlegar öllum siðmenntuðum þjóðum!
Við horfum á íslenskar Fréttir og Kastljós á hverju kvöldi og hugurinn er mest á Íslandi þessa dagana. Ég hreinlega finn til yfir þessari ótrúlegu spillingu og óréttlæti sem er nú að eyðileggja líf fjölda fólks og tilfinning mín er sú að ástandið sé og verði miklu verra en nokkurn órar fyrir. Það eina sem ég sé í stöðunni er nýtt lýðveldi með nýju fólki við stjórn. En það gerist ekki nema fólk hætti að kjósa yfir sig spillingaröflin aftur og aftur! Og þar með endaði ég bloggið á pólitískum nótum enn og aftur! Kannski er bara ekki annað hægt þessa dagana :-(

Thursday, January 08, 2009

Atvinna

Hin miklu áform um að vera dugleg að blogga í atvinnuleysinu fóru eitthvað útum þúfur –enda var ég yfirleitt búin að fá alveg nóg af tölvunni þegar ég var búin að lesa atvinnuauglýsingarnar og hörmungarfréttir að heiman. Svo kom jólaundirbúningurinn og jólin sem voru mikið til haldin með “gömlunum” mínum á elliheimilinu. En þetta voru samt ósköp indæl jól, sérílagi að eignast svona fallega litla bróðurdóttur hér í Køben og svo að fá óléttu litlu systur í heimsókn. En ég saknaði nú margra. Það góða við janúar hér er að manni finnst vorið vera alveg á næsta leyti þó það sé smá snjóföl á götunum. Nú á ég líka birtuna fyrir mig flesta daga  Ég er komin með annað hlutastarf sem mér finnst alveg snilld. Það er á læknastofu hvar ég mæti klukkan 6 á morgnana og tek aðeins til og hita kaffi. Klukkan 9 er ég svo búin í vinnunni og dagurinn er minn.....
Þetta með 2. hverri helgi á elliheimilinu slagar hátt í það sem ég þarf til að framfleyta mér á mánuði svo það lítur út fyrir að ég muni hafa tíma til að skapa eitthvað skemmtilegt. Ég er alltaf að hallast meira og meira að því að mestu lífgæðin séu fólgin í því að vinna sem minnst. Ég er ánægð á meðan ég á fyrir mat og kannski flík í HM af og til. Þarf ekki meir. Vonast til að finna svona eina kvöldvakt í viku og þá er ég sátt og get dundað mér við að vera myndlistarmaður meginpart dagsins. En ég er sorgmædd yfir ástandinu á Íslandi. Það er gersamleg óþolandi hvað það ríkir mikið óréttlæti á þessari eyju minni.