Hin miklu áform um að vera dugleg að blogga í atvinnuleysinu fóru eitthvað útum þúfur –enda var ég yfirleitt búin að fá alveg nóg af tölvunni þegar ég var búin að lesa atvinnuauglýsingarnar og hörmungarfréttir að heiman. Svo kom jólaundirbúningurinn og jólin sem voru mikið til haldin með “gömlunum” mínum á elliheimilinu. En þetta voru samt ósköp indæl jól, sérílagi að eignast svona fallega litla bróðurdóttur hér í Køben og svo að fá óléttu litlu systur í heimsókn. En ég saknaði nú margra. Það góða við janúar hér er að manni finnst vorið vera alveg á næsta leyti þó það sé smá snjóföl á götunum. Nú á ég líka birtuna fyrir mig flesta daga Ég er komin með annað hlutastarf sem mér finnst alveg snilld. Það er á læknastofu hvar ég mæti klukkan 6 á morgnana og tek aðeins til og hita kaffi. Klukkan 9 er ég svo búin í vinnunni og dagurinn er minn.....
Þetta með 2. hverri helgi á elliheimilinu slagar hátt í það sem ég þarf til að framfleyta mér á mánuði svo það lítur út fyrir að ég muni hafa tíma til að skapa eitthvað skemmtilegt. Ég er alltaf að hallast meira og meira að því að mestu lífgæðin séu fólgin í því að vinna sem minnst. Ég er ánægð á meðan ég á fyrir mat og kannski flík í HM af og til. Þarf ekki meir. Vonast til að finna svona eina kvöldvakt í viku og þá er ég sátt og get dundað mér við að vera myndlistarmaður meginpart dagsins. En ég er sorgmædd yfir ástandinu á Íslandi. Það er gersamleg óþolandi hvað það ríkir mikið óréttlæti á þessari eyju minni.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment