Friday, August 13, 2010

Tíðindi

Það er orðið langt síðan eitthvað var skrifað hér en aldrei að vita nema það standi til bóta?
Nú er ég komin í barneignarfrí og kannski gefst tími til að skrifa. Ég ætla alveg að sleppa því að fara á Barnaland og láta mér nægja þær bloggsíður sem ég er með nú þegar þ.e. þessa og myndasíðuna sem ég er hlekkur á hér til hliðar. Mér sýnist flestir sem ég þekki hvort eð er hætta að blogga á sínar eigin síður þegar börnin koma! Hvort hér framvegis koma heimspekilegar vangaveltur eða yfirlit um hvern ropa ungabarns verður svo bara að koma í ljós....

Thursday, March 26, 2009

Detox

Ég veit ekki hvað varð um vorið sem hefur verið í lofti undanfarið. En það er enn i sálinni og ég bíð spennt eftir vorvindum. Það hefur smám saman verið að renna upp fyrir mér að ég bý enn á norðurlöndum. En síðasta vor fannst mér ég búa í hitabelti og ég læt mig dreyma um annað eins.
Helst í fréttum síðan síðast er að íbúðin seldist! Ótrúlegt en satt! Veit ekki hvort það var fremur af leti eða ótta við að lenda á götunni að við gripum fyrstu vel staðsettu íbúðina sem okkur bauðst þrátt fyrir óvissu um leigutímann. Sjáum fram á vor í Vesterbro –ég bið ekki um meira í bili og vona bara að eiganda ibúðarinnar gangi vel í fyrirhuguðu landnámi á Samsø. Við höfum íbúðina a.m.k. til 1 ágúst. Ég er í hamingjukasti að vera að komast aftur í vesturbæinn, þar sem allt iðar af skrautlegu mannlífi og kaffihúsum. Það eru líka ótrúleg foréttindi í stórborg að búa í næstu götu við vinnuna!
Ég er líka búin að fá aukavinnuna sem mig vantaði, í bili a.m.k , get nú ekki sagt að hún sé sérlega spennandi –en það má alveg leggja á sig tvo leiðinleg kvöld í viku fyrir að losna við fjárhagsáhyggjur. Leita svo bara að öðru í rólegheitunum. Þetta er allt svona “ fínt í bili ástand á öllu” –en er hægt að biðja um meira i heimskreppu? Það er að minnsta kosti mikill léttir að vera búin að leysa aðkallandi vandamál og ég er byrjuð í innri vorhreingerningu. Grænmeti, ávextir, vatn og hugleiðsla. Vona að það komi sköpunarkraftinum í gang –ef ekki er ég bara ánægð með betri meltingu ;-)

Saturday, January 31, 2009

Helgarfrí og pólitík

Loksins kom langþráð helgarfrí og ég mátti sofa út. Líkamsklukkan vakti mig kl.7:30 eða um leið og birta tók. Síðan ég flutti hingað er ég laus við þennan stöðuga svefndrunga og slen sem hefur hrjáð mig árum saman. Veturinn hér er dimmur og oft kaldur en þessi smávægilegi birtumunur virðist gera herslumuninn og svo hefur vissan um vor á næsta leiti auðvitað heilmikið að segja
andlega.
Það er annars lítið að frétta. Sótti um nokkrar aukavinnur í vikunni og vona að það komi eitthvað útur því. Þetta eru örfáir tímar á viku sem mig vantar til að ná endum saman og vera komin með ígildi fullrar vinnu. Ég vona bara það besta og reyni að halda ró minni –reynslan hefur sýnt mér að danir eru ekkert að flýta sér við mannaráðningar og hafa oftar en ekki samband þegar maður er alveg búin að gleyma því að hafa sótt um. Hér er enn einhverja vinnu að fá ef maður er ekki of vandlátur. Það virðist vanta mikið af leikskólakennurum, sjúkraliðum og kokkum en það er miklu minni eftirpurn eftir ófaglærðu fólki í hin ýmsu störf en var fyrir ári síðan. Það er nokkuð um uppsagnir hér en fréttir og spár af “finanskrísunni” eru sitt á hvað heyrist mér, ýmist er hún rétt að byrja eða alveg að verða búin! En fasteignamarkaðurinn hér er við frostmark og eignir falla í verði. Íbúðin sem við búum í er til sölu og það hafa komið svona 1-2 að skoða vikulega og þykir gott. Vinur minn býr í söluíbúð í öðru hverfi og það hefur engin komið að skoða hana mánuðum saman.
Yfirveðsetning, hærri vextir og óhófleg neyslulán eru farin að ógna hag margra og nú er svo komið að danir eru að opna rágjafarstofu um fjármál eða eins og þeir segja “Skadestue” sem einnig þýðir “slysavarðsstofa” ég gat ekki annað en brosað þegar ég heyrði þá frétt! Það á að taka þetta föstum tökum segja þeir. Hér er það ekki liðið að fólk sé með of háa greiðslubyrgði og nái ekki endum saman.
Ég fór í “skattavesenið” (Annað orð sem er bráðskemmtilegt i beinni þýðingu) um daginn til að fá aðstoð við að telja fram skuldir mínar á Íslandi því ég á eftir því sem ég kemst næst, rétt á vaxtabótum hér. Blessuð konan, sem afgreiddi mig, hélt fyrst að ég hlyti að vera eitthvað að misskilja hversu stór hluti afborgananna væru vextir og þegar mér loks tókst að sannfæra hana um að ég skildi þetta allt rétt krossaði hún sig bara í bak og fyrir! Verðbæturnar voru ekki einu sinni teknar til greina enda óskiljanlegar öllum siðmenntuðum þjóðum!
Við horfum á íslenskar Fréttir og Kastljós á hverju kvöldi og hugurinn er mest á Íslandi þessa dagana. Ég hreinlega finn til yfir þessari ótrúlegu spillingu og óréttlæti sem er nú að eyðileggja líf fjölda fólks og tilfinning mín er sú að ástandið sé og verði miklu verra en nokkurn órar fyrir. Það eina sem ég sé í stöðunni er nýtt lýðveldi með nýju fólki við stjórn. En það gerist ekki nema fólk hætti að kjósa yfir sig spillingaröflin aftur og aftur! Og þar með endaði ég bloggið á pólitískum nótum enn og aftur! Kannski er bara ekki annað hægt þessa dagana :-(

Thursday, January 08, 2009

Atvinna

Hin miklu áform um að vera dugleg að blogga í atvinnuleysinu fóru eitthvað útum þúfur –enda var ég yfirleitt búin að fá alveg nóg af tölvunni þegar ég var búin að lesa atvinnuauglýsingarnar og hörmungarfréttir að heiman. Svo kom jólaundirbúningurinn og jólin sem voru mikið til haldin með “gömlunum” mínum á elliheimilinu. En þetta voru samt ósköp indæl jól, sérílagi að eignast svona fallega litla bróðurdóttur hér í Køben og svo að fá óléttu litlu systur í heimsókn. En ég saknaði nú margra. Það góða við janúar hér er að manni finnst vorið vera alveg á næsta leyti þó það sé smá snjóföl á götunum. Nú á ég líka birtuna fyrir mig flesta daga  Ég er komin með annað hlutastarf sem mér finnst alveg snilld. Það er á læknastofu hvar ég mæti klukkan 6 á morgnana og tek aðeins til og hita kaffi. Klukkan 9 er ég svo búin í vinnunni og dagurinn er minn.....
Þetta með 2. hverri helgi á elliheimilinu slagar hátt í það sem ég þarf til að framfleyta mér á mánuði svo það lítur út fyrir að ég muni hafa tíma til að skapa eitthvað skemmtilegt. Ég er alltaf að hallast meira og meira að því að mestu lífgæðin séu fólgin í því að vinna sem minnst. Ég er ánægð á meðan ég á fyrir mat og kannski flík í HM af og til. Þarf ekki meir. Vonast til að finna svona eina kvöldvakt í viku og þá er ég sátt og get dundað mér við að vera myndlistarmaður meginpart dagsins. En ég er sorgmædd yfir ástandinu á Íslandi. Það er gersamleg óþolandi hvað það ríkir mikið óréttlæti á þessari eyju minni.

Tuesday, November 11, 2008

Atvinnuleysi Dagur 9

Það er alltaf gott að leggja upp með góð áform! Ætlaði að blogga á hverjum degi en það hefur eitthvað lítið orðið úr því enda nóg að gera við að lesa blogg annarra íslendinga og fréttir þessa dagana! Það er svo mikið af frábæru fólki sem hefur svo margt til málanna að leggja. Í síðustu færslu kvartaði ég yfir dugleysi landa minna í mótmælum en sé ekki betur en fólk sé að vakna til lífsins!
Ég er alveg buin að fá uppí kok af ástandinu á Íslandi og ég bý ekki einu sinni þar! Kannski sér maður ástandið öðruvísi þegar maður fylgist með úr fjarska? Ég mundi vilja sjá byltingu á Íslandi, nýtt fólk við stjórn og róttækar breytingar. Alvöru velferðarþjóðfélag. Ég bjó á Spáni þegar "góðærið" var í hæstu hæðum og var oft spurð að því hvort við hefðum það ekki svo gott á Íslandi? Ég kannaðist ekki við það. Minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma náð endum saman um mánaðarmót þarna heima.
Hér í Danmörku er mögulegt að lifa af laununum sínum, það er alveg nýtt fyrir mér. Ég borga háa skatta hér en mér finnst ég vera að fá eitthvað fyrir peningana mína. Þeir sem eru með miklu hærri laun en ég borga ennþá hærri skatta. Mér finnst það vera réttlátt. Ég hef heyrt marga íslendinga óskapast úti þetta kerfi hér og kvarta yfir hátekjuskatti. Ég held að það sé þessi rótgróna minnimáttarkennd í íslendingum sem gerir það að verkum að við þurfum alltaf að vera meiri en næsti maður, erum aldrei ánægð nema við séum aðeins flottari og ríkari. Ég vona að þessi kreppa breyti hugarfari fólks. Það er nefnilega gott að vera jafn hinum. Það fylgir því mikil sálarró að vera ekki að rembast við að skara fram úr á einhvern hátt.

Ég er ekki alveg atvinnulaus lengur er komin með hlutastarf á elliheimili. Byrja í starfsþjálfun á morgun. Þetta er ekkert spennandi en a.m.k vinna. Það er kreppa hér líka og maður sér það helst á atvinnuauglýsingunum. Þegar ég kom hingað fyrir rúmu og var að leita að vinnu bættust við tugir nýrra starfa á atvinnuvefina daglega. Nú eru þetta nokkur störf á viku svo það er ekki um auðugan garð að gresja. Eins og heimurinn lítur út þessa dagana sýnist mér best að veðja á starf hjá hinu opinbera.
Það hefur allt breyst síðan ég kom hingað. Ég var óhamingjusöm á Íslandi og langaði í aðra tilveru.
Allt hefur sína kosti og galla og eftir árið eru gallar þess að búa erlendis orðnir mun ljósari. "En þá skall á kreppa..." og núna er ekkert vit í því að fara heim! Valkvíði hefur kannski verið eitt helsta lúxusvandamál minnar kynslóðar og á meðan ég vissi ekki í hvorn fótinn ég átti að stíga í valkvíða mínum var fótunum hreinlega kippt undan mér!

Sunday, November 02, 2008

Atvinnuleysi Dagur 2

Líkamsklukkan er enn vel stillt á sunnudagsmorgni og ég komin á fætur hálfsex, læðist um íbúðina eins og þjófur í myrkrinu og stelst til að hita mér expressó af sterkari gerðinni.
Einar, Karen og Daníel Máni komu í mat í gærkvöld og eftir að þau voru farin geispuðum við "gömlu hjónin" yfir íslensku fréttunum á netinu og fórum snemma að sofa. Það er alveg merkileg að vera með 40 sjónvarpsstöðvar og það er aldrei neitt í sjónvarpinu! Ég horfi oft öfundaraugum á dagskrárliðina sem ég sé að eru eftir fréttir á RÚV en eru ekki sendir út á netinu. Það er annars nýtilkomið að við fylgjumst svo náið með fréttum að heiman, ég les líka allar fréttasíðurnar og fylgist með bloggskrifum um nýjustu fréttir. Maður er með hálfan hugann á Íslandi þessa dagana!
Kreppan var aðalumræðuefni matarboðsins i gær og voru skoðanir skiptar um það hvort ríkisstjórnin ætti að víkja strax. Það er nú kannski bara til þess fallið að auka á uppnámið að fara að skipta um stjórn meðan "Húsið" stendur enn í björtu báli en hitt er svo annað mál að ríkistjórnin hefur til þessa ekki sýnt fram á að henni sé treystandi fyrir björgunarstarfinu. Það er lítill hugarléttir fyrir þjóðina á þessum tímum að hafa stjórn sem stendur sig verr en "fólk valið af handahófi úr símaskránni" mundi gera
-svo vitnað sé í viðfræg orð hins bandaríska prófessors. Einhver bloggarinn sagði viðbrögð ríkisstjórnarinnar vera fumkennd og einkennast af leynimakki, hroka og útúrsnúningum og ekki er annað hægt en að vera sammála því. EN HVAÐ MEÐ VIÐBRÖGÐ ÞJÓÐARINNAR? Þrælslundin í íslendingum er slík að þorri þjoðarinnar situr þegjandi og hljóðalaust undir því að allt að 10% landsmanna séu að missa atvinnu, að húsnæðislánin rjúki uppí himnháar upphæðir meðan eignir falla í verði, að seðlabankinn sé gjaldþrota og skuldlaust þjóðarbúið sé skuldsett kynslóðir fram í tímann. Það er undarleg forgangsröðun í aðgerðum stjórnarinnar, þeir voru ekki lengi að afgreiða nýju bílana úr landi enda nauðsynlegt að ekki tapist verðmæti þar! En það virðist ekkert liggja á að afnema verðtrygginguna sem tikkar hratt þessa dagana og bitnar á flestum heimilum í landinu! Það myndi m.a. bitna á lífeyrisjóðunum eru rökin. Mín kynslóð verður dauð úr fjárhagsáhyggjum löngu áður en við náum að nýta okkur þessi lífeyrisréttindi og kannski allt í lagi að kynslóðin sem fékk húsnæðið og námslánin nánast gefins búi við skert lífeyrisréttindi. Það á að koma til móts við fólk í fjárhagörðuleikum segja ráðherrar en á sama tíma fáum við fréttir af því að hrægammarnir hjá siðlausum innheimtufyrirtækjunum sýni meiri hörku en nokkurn tíma fyrr. Fyrirtæki sem eru n.b. nú að hluta í eigu ríkisins! Fólk sem ennþá er í aðstöðu til að semja um eitthvað er beitt gengdarlausu fjárhagslegu ofbeldi en þeir sem eru svo ógæfusamir að vera þegar lagstir á hliðina eru stimplaðir vanskilaseggir og í þá má sparka liggjandi að vild samkvæmt íslenskum lögum!
HVERS VEGNA ER EKKI FLEIRA FÓLK Á GÖTUM ÚTI AÐ MÓTMÆLA???? Hér í Kaupmannahöfn var einni félagsmiðstöð lokað og það logaði allt í mótmælum vikum saman. Á Íslandi mættu rúmlega 1000 manns í mótmælagöngu í gær. Eru hin 300 þúsundin bara ósköp sátt við þetta allt saman? Eða sitja þau bara heima og horfa með skömmustu á flatskjáinn? Hvar er allur mannfjöldin sem við sjáum á þjóðhátíðum? Það er sagt að hver þjóð fái þá ríkistjórn sem hún verðskuldar og það virðist því miður eiga við um okkur. Þrælslundin er enn sú sama og í síðustu kreppu; VIÐ GETUM EKKI, ÞORUM EKKI og VILJUM EKKI!

Saturday, November 01, 2008

Atvinnuleysi

Líkamsklukkan er magnað fyrirbæri. Í fyrstu fannst mér það óyfirstíganlegt að mæta í vinnu kl.7 að morgni og leið á hverju kvöldi eins og ég væri að fara í morgunflug, gat ekki fest svefn af stressi yfir að vakna ekki. Í síðustu viku var klukkunni seinkað um einn tíma og þá tók ég uppá því að vakna einum tíma á undan klukkunni! Það tók mig 3 daga að aðlagast og núna vakna ég aftur kl. hálfsex líka þegar ég á frí! Frí er nú reyndar bara fínt orð yfir atvinnuleysi. En ég ætla að reyna a ímynda mér að þetta sé frí enda þarf ég á slíku að halda. Á þessu síðasta ári hef ég tvisvar verið atvinnulaus í mánuð sem er alveg ný reynsla fyrir mig. Ég hef alltaf vitað nokkurn vegin hvað er framundan og störf hafa komið til mín fyrirhafnarlaust. Þessi atvinnuleysistímanbil hafa verið hræðileg og ég hef engan vegin getað notið frelsisins vegna lamandi ótta og ovissu. Nú er ég reynslunni ríkari í atvinnuleit og veit hvað skilar árangri og hvað er tímaeyðsla. Til að halda geðheilsu ætla ég þessa fyrstu viku að vera í atvinnuleit 4-6 tíma á dag og fara svo bara að sinna málverkinu. Og blogga á hverjum degi....