Thursday, August 23, 2007

Planið?

Já hvað er planið? Nú er eitt og hálft ár liðið síðan ég kom heim frá Spáni og eins og sjá má á síðustu skrifum hefur mér gengið mjög illa að aðlagast Íslandi á ný (hm ;-))
Ég hef aldrei skilið hvers vegna íslendingum finnst Ísland vera “Best í heimi” Hér er dimmur vetur 9 mánuði á ári og oftar en ekki skítaveður, hvort sem er að sumri eða vetri. Á sumrin er bjart allan sólarhringinn sem kostar mann svefnleysi og ótímabærar hrukkur í kringum augun.
Við þykjumst vera velferðarþjóðfélag en það er fjarri sanni. Á Spáni var ég spurð að því hvort við hefðum það ekki svakalega gott hér á Íslandi? Spyrjandinn hafði þá lesið einhversstaðar að við værum 4 ríkasta þjóð í heimi og fannst þetta rökrétt ályktun. Ég útskýrði fyrir honum að Ísland væri fremur kapítalískt þjóðfélag þar sem hinir ríku yrðu stöðugt ríkari en meginþorri fólks hefði það verulega skítt og næði ekki endum saman þrátt fyrir langan og strangan vinnudag og mikla yfirvinnu.
Það eru sumir sem vilja halda því fram að hér ríki velferð en að við séum bara of materíalísk og gerum of miklar kröfur! Ég veit ekki hvað eðlilegt viðmið er –auðvitað höfum við það betra en flestir í Afríku og megum vera þakklát fyrir það. Ég nenni ekki að byrja á einstæðu mæðra ræðunni og væla. En mér finnst einhvern veginn að í þjóðfélagi sem vill kalla sig velferðarþjóðfélag ættu ALLIR (líka öryrkjar og einstæðar mæður) að hafa efni á að borða hollan og næringarríkan mat, fara til læknis og svo ég tali nú ekki um lúxus eins og tannlækna! Ég er ekki að tala um lúxus eins og flatskjái og merkjavöru.
Bankakerfið er að mínu mati rekið af siðlausum glæpamönnum sem okra á þeim sem minnst mega sín með vöxtum og verðbótum sem teljast okurvextir í öllum hinum siðmenntaða heimi og flestir þeir sem eru með meðaltekjur eða undir þeim lifa í stöðugum vítahring yfirdráttar meðan bankastjórarnir svalla fyrir gróðann í laxveiðiám.
Svo verðlauna bankarnir “góðu viðskiptavinina” sem skulda ekki neitt en refsa þeim sem gefa þeim gróðann með því að borga vexti og vaxtavexti. Einhverju sinni var sagt um okkur íslendinga að við þyrðum ekki, gætum ekki og vildum ekki -og mér sýnist að við höfum ekkert þroskast síðan þá! Við erum allaf sömu kotbændurnir í hjartanu og látum allt yfir okkur ganga þegjandi og hljóðalaust. A.m.k. sé ég ekki margmenni hér á götum úti að mótmæla einu né neinu.
Það er þó margmenni á götum úti þessa dagana og það eru vesalings reykingamennirnir sem borga hundruð milljóna í ríkiskassann árlega fyrir ósiðinn. Það var íslendingum líkt að innleiða reykingabann með fasisma og ofsa og henda þeim sem minna mega sín í þeim málum útá götu á eins niðurlægjandi hátt og hugsast gat! Það má ekki reykja inni og ekki drekka úti! Ég bjó á Spáni þegar reykingabannið var innleitt þar og það var mun manneskjulegra.
Þetta reykingabann hér fyllti endanlega mælinn og nú er ég að flytja til gömlu höfuðborgarinnar. Þeir eru reyndar að vinna að slíku banni þar en eins og við er að búast af frændum okkar Dönum verða reglurnar manneskjulegri en hér.
Það hvarflar að mér að við ættum að biðja Dani að ættleiða okkur aftur? –eða fylgja þjóðarsálinni eins og hún er í raun og fá að verða 51. ríki Bandaríkjanna? Ég veit ekki með þessa sjálfstæðisbaráttu - mér sýnist við ekki alveg kunna fótum okkar forráð hér á landi??
Hvað um það, góðu fréttirnar eru þær að lögum samkvæmt get ég bara flutt til Danmerkur fengið mér kennitölu og orðið Dani! Ég veit ekki ennþá hvað ég ætla að gera það, ætli ég reyni ekki að nota þessa menntun sem ég verð að borga af það sem eftir er ævinnar og fá mér vinnu, þar sem vinnutíminn gerir ráð fyrir því að maður eigi líf og maður fær eitthvað sem nýtist manni fyrir skattana sem maður borgar?

Thursday, August 16, 2007

Reykjavík

Þá er ég búin að vera á Íslandi í viku. Það var rigningarsuddi þegar við Tóti lentum í KEF og eyjan góða eins grá og hugsast getur. Ég fæ alltaf kökk í hálsinn þegar ég lendi hér og það er ekki af ættjarðarást heldur þunglyndi yfir því að vera komin aftur. Ég held svo niðrí mér andanum fyrstu sólarhringana –svona í andlegum skilningi og reyni að lifa á útlensku súrefni sem lengst og vera með hugann þar sem ég var, ekki alveg tilbúin að leyfa íslenskum veruleika að kikka inn. En hann gerir það alltaf..fyrr en síðar. Bráðum kemst ég burt.....

Tuesday, August 07, 2007

Ein í Koben

...Eða sól í Koben, það stemmdi, góða veðrið kom þegar Inga og Tóti voru farin. Mér fannst ég óhugnalega ein eftir að Inga fór útá flugvöll á Laugadaginn. Var búin að sjá það fyrir mér sem upphafið á „gæðatíma með sjálfinu“ –en þegar til kom var það bara tómlegt. Fór bara að taka til og þrífa, guði sé lof fyrir húsmóðurstörf þegar maður veit ekki hvernig maður á að vera! Klæddi mig uppá og rölti niður á hverfiskaffihúsið fékk mér bjór og bloggaði. Fékk mér vondan ódýran hamborgara og fór svo heim. Horfði á þrjár leiðinlegar myndir með öðru á meðan ég spjallaði á msn. Fannst ég allt í einu vera að missa af verslunarmannahelginni, sá fyrir mér bjartar íslenskar sumarnætur og gleði og gítarspil. Sem er soldið fyndið í ljósi þess að ég hef verið innipúki síðustu verlunarmannahelgar...Sofnaði þunglynd, með efasemdir um allt. Hreiðar bjargaði mér frá sjálfri mér þegar ég vakanaði á sunnudeginum og ég fór beint að hitta þau Konungsgarðinum. Passaði svo stelpurnar þeirra um kvöldið og horfði á góða mynd. Tók gleði mína á ný með litlu skottunum. Þau komu seint heim svo ég svaf á sófanum hjá þeim og átti svo indislegan dag með Önnu og stelpunum í garðinum. Kom svo heim og var sátt við einveruna. Fékk mér grænt te og las... er það ekki mælikvarði á innri ró?

Sunday, August 05, 2007

Rigning í Koben

Smá dagbók hér, ef einhver nennir að lesa! Við vinkonurnar „lentum“ á flugvallarbarnum á Kastrup þann 25. Júlí hvar Stjáni tók á móti okkur og við fengum okkur öl og nutum þess að reykja INNI. Eitthvað var Tóta farið að lengja eftir okkur að tveimur tímum liðnum svo við drifum okkur mjúkar og fínar heim til hans á Íslandsbryggju. Þetta var fín lending og ekki of mikil viðbrigði og við lærðum fljótt að rata frá Egilsgade að Isafjordsgade hvar við fengum okkur kvöldverð. Við komumst ekki lengra en að hafnarbakka „Sydhavnen“ það kvöldið enda frekar þreyttar.
Daginn eftir fórum við í brunch til Agga og Huldu á Vesterbro og hittum svo Hreiðar í bubbles á LOFT fínu stofunni hans við Strikið. Rigningin réði ferðum okkar þetta kvöldið og við hoppuðum með Hreiðari og Önnu milli nokkurra staða í nánasta umhverfi stofunnar. Það ringdi enn á föstudeginum en við vinkonurnar ákváðum að taka skvísudag, fórum í klippingu til Hreiðars og svo að versla á Strikinu í grenjandi rigningu, þrumum og eldingum! Sem reyndar er ágætis verslunarveður....Hittum svo Önnu og stelpurnar og fengum okkur Cosmopolitan, spurning um að taka Sexandthecity skvísudaginn alveg með klisjunni og öllu. Enduðum svo í rauðvíni og og ostum hjá þeim Önnu og Hreiðari.
Á laugardeginum stóð svo til að skoða „Stínu“ í fylgd Tóta en við rigndum niður í götunni heima! ..svo við fórum bara í hverfisbúðina, keyptum fullt af góðgæti og lögðumst í leti heima. Eitthvað stytti upp um kvöldið svo við fórum í víetnamskan kvöldverð í bæinn og röltum svo Istegade á uppáhaldsbarina okkar í Vesterbro.
Á sunnudag mættum við svo í brunch á þvottahúskaffinu með Agga, Huldu, mömmu hennar og systur. Það vær mjög ljúft, mikið af beikoni, pönnukökum og sírópi og við fengum m.a.s. sólarglætu og gátum setið úti fram að síðustu pönnuköku! Tókum svo ágætis göngutúr í þokkalegu veðri í fylgd bílalestar æstra fóboltaáhugamanna frá ( Íran??) sem þeyttu flauturnar, veifuðu fánum og görguðu af fagnaði yfir að hafa unnið (asíska??) meistaramótið í fótbolta. Eins og sést á þessum skrifum er ég ekki mjög vel að mér í boltanum! Hehe, Það hefur líka verið annað fótboltamót hér í Köben þessa viku sem mér finnst öllu áhugaverðara; Meistaramót heimilislausra á Ráðhústorginu!! Án gríns, ég dái viðhorf Dana til þeirra sem minna mega sín! Þetta kvöld enduðum við svo í Tívoli með Hreiðari, Önnu og stelpunum í grenjandi rigningu enn og aftur. Við Ingu unnum okkur það helst til frægðar að fara með stelpurnar í barnarússíbanan og fannst það alveg nógu spennandi. Hitt fullorðna fólkið var aðeins hugaðra!
Á mánudag vorum við búin að fá nóg af Köben, leigðum okkur bíl og keyrðum Sjáland stranda á milli. Þær eru ekki miklar vegalengdirnar hér á eyjunni og við kláruðum varla hálfan tank í ferðinni! Erfiðast var að komast útúr Kaupmannahöfn en það tókst að lokum þegar við hættum að leita að veginum sem við höfðum ætlað að keyra og létum eðlisávísunina ráða. Það voru góð mistök því við sáum hluta borgarinnar sem við höfum aldri séð svo sem Charlottenlund þar sem fína fólkið býr í svakalegum „slotum“. Við keyrðum svo meðfram Eyrarsundi í gegnum endalausa smábæi með þeim sætustu og rómantískustu sveitahúsum sem ég hef séð upp til Helsingör þar sem við reyndum að skoða Kronenborgarkastala en vorum of sein! Hér er opnunartíminn tekið mjög bókstaflega. Við fengum okkur svo kaffi í ótrúlega sætum bryggjubæ sem heitir Hornbæk og keyrðum sem leið lá til Gillelege þangað sem förinni var heitið. Við höfðum pantað hótel fyrir nóttina á á Baðhótelinu Helenekilde í bænum Tilsvildelege. Það er skemmst frá því að segja að við lentum í þriggja manna „brúðkaupsferð“ á þessu dásamlega hóteli. Set bara linkinn hér svo ég verði ekki of væmin í lýsingum mínum á staðnum. www.helenekilde.com Áttum semsagt indislegan tíma við strandir Kattegat. Vorum svo næsta dag að „dúlla okkur“ í nágrenninu og keyrðum við til Köben með viðkomu í Hilleröd þar sem við náðum að skoða Frederiksborgkastala á hlaupum 20 mín í lokun!! Við erum svo röskir íslendingar að við fórum létt með það, hehe. Vorum svo ekki alveg tilbúin fyrir Köben þegar við komum heim svo við tókum aukakrók til Dragör þar sem er gamall fiskibær með þeim pínuminnstu húsum sem ég hef nokkurn tíma séð.
Daginn eftir fór svo Tóti til Barcelona og við vinkonurnar vorum einar eftir í íbúðinni á Íslandsbryggju. Eftir að hafa kvatt kappann fórum við að hitta Stjána, Jan, Ebbu og Þorvarð á Nyhöfn. Þar var tekin smá hvítvínsdrykkja í sólinni sem loksins er komin! Fórum svo á hina einu og sönnu vínstofu hvar Nóbelsskáldið vandi komur sínar og leyfðum virðulegum þjónunum þar að „ala okkur upp“ með bros á vör! (Þeim fannst það ófært að allir væru að panta glös fyrir borðið sitt í hvoru lagi!) Höfðinginn Jan bauð okkur svo á frábæranum ítalskan restaurant og við glútrasystur enduðum í partíi hjá þeim Stjána fram á nótt.
Fimmtudaginn tók ég rólega heima enda orðin frekar þreytt (lesist þunn) eftir allt partístandið en Inga fór í bæinn að versla og ég hitti svo hana og Jóhönnu vinkonu okkar í eftirmiðdaginn. Jóhanna var með litla nýfædda hnoðrann sinn í vagninum og við sáum undir tjaldi í rigningunni og „gripum það sem hefur gerst síðan síðast“ Við fengum okkur kvöldmat í bænum og flúðum svo heim undir regnhlífinni.
Þá var tími okkar vinkvennanna hér í Köben senn á enda og síðasta daginn fylgdi ég Ingu um miðbæinn að klára síðustu innkaupin. Við fundum elstu myndlistabúð í Köben sem er ótrúlega sæt, allt afgreitt yfir borðið og innréttingarnar 100 ára og ég keypti vatnsliti og pappírsblokk! –Því fyrsta skipti síðan ég útskrifaðist finn ég hjá mér löngum til að fikta aftur við myndlist J Ég fór svo með Ingu að kveðja Agga og Huldu sem er sætust að springa úr óléttu! Við fórum svo á „Vegamót“ í Vesterbro og fengum okkur eitt rautt að lokum og ég fékk símtal þess efnis frá Reykjavík að búið sé að finna arftaka minn í Kraminu –svo líklega er ég að flytja hingað í alvörunni!!!!