Sunday, August 05, 2007

Rigning í Koben

Smá dagbók hér, ef einhver nennir að lesa! Við vinkonurnar „lentum“ á flugvallarbarnum á Kastrup þann 25. Júlí hvar Stjáni tók á móti okkur og við fengum okkur öl og nutum þess að reykja INNI. Eitthvað var Tóta farið að lengja eftir okkur að tveimur tímum liðnum svo við drifum okkur mjúkar og fínar heim til hans á Íslandsbryggju. Þetta var fín lending og ekki of mikil viðbrigði og við lærðum fljótt að rata frá Egilsgade að Isafjordsgade hvar við fengum okkur kvöldverð. Við komumst ekki lengra en að hafnarbakka „Sydhavnen“ það kvöldið enda frekar þreyttar.
Daginn eftir fórum við í brunch til Agga og Huldu á Vesterbro og hittum svo Hreiðar í bubbles á LOFT fínu stofunni hans við Strikið. Rigningin réði ferðum okkar þetta kvöldið og við hoppuðum með Hreiðari og Önnu milli nokkurra staða í nánasta umhverfi stofunnar. Það ringdi enn á föstudeginum en við vinkonurnar ákváðum að taka skvísudag, fórum í klippingu til Hreiðars og svo að versla á Strikinu í grenjandi rigningu, þrumum og eldingum! Sem reyndar er ágætis verslunarveður....Hittum svo Önnu og stelpurnar og fengum okkur Cosmopolitan, spurning um að taka Sexandthecity skvísudaginn alveg með klisjunni og öllu. Enduðum svo í rauðvíni og og ostum hjá þeim Önnu og Hreiðari.
Á laugardeginum stóð svo til að skoða „Stínu“ í fylgd Tóta en við rigndum niður í götunni heima! ..svo við fórum bara í hverfisbúðina, keyptum fullt af góðgæti og lögðumst í leti heima. Eitthvað stytti upp um kvöldið svo við fórum í víetnamskan kvöldverð í bæinn og röltum svo Istegade á uppáhaldsbarina okkar í Vesterbro.
Á sunnudag mættum við svo í brunch á þvottahúskaffinu með Agga, Huldu, mömmu hennar og systur. Það vær mjög ljúft, mikið af beikoni, pönnukökum og sírópi og við fengum m.a.s. sólarglætu og gátum setið úti fram að síðustu pönnuköku! Tókum svo ágætis göngutúr í þokkalegu veðri í fylgd bílalestar æstra fóboltaáhugamanna frá ( Íran??) sem þeyttu flauturnar, veifuðu fánum og görguðu af fagnaði yfir að hafa unnið (asíska??) meistaramótið í fótbolta. Eins og sést á þessum skrifum er ég ekki mjög vel að mér í boltanum! Hehe, Það hefur líka verið annað fótboltamót hér í Köben þessa viku sem mér finnst öllu áhugaverðara; Meistaramót heimilislausra á Ráðhústorginu!! Án gríns, ég dái viðhorf Dana til þeirra sem minna mega sín! Þetta kvöld enduðum við svo í Tívoli með Hreiðari, Önnu og stelpunum í grenjandi rigningu enn og aftur. Við Ingu unnum okkur það helst til frægðar að fara með stelpurnar í barnarússíbanan og fannst það alveg nógu spennandi. Hitt fullorðna fólkið var aðeins hugaðra!
Á mánudag vorum við búin að fá nóg af Köben, leigðum okkur bíl og keyrðum Sjáland stranda á milli. Þær eru ekki miklar vegalengdirnar hér á eyjunni og við kláruðum varla hálfan tank í ferðinni! Erfiðast var að komast útúr Kaupmannahöfn en það tókst að lokum þegar við hættum að leita að veginum sem við höfðum ætlað að keyra og létum eðlisávísunina ráða. Það voru góð mistök því við sáum hluta borgarinnar sem við höfum aldri séð svo sem Charlottenlund þar sem fína fólkið býr í svakalegum „slotum“. Við keyrðum svo meðfram Eyrarsundi í gegnum endalausa smábæi með þeim sætustu og rómantískustu sveitahúsum sem ég hef séð upp til Helsingör þar sem við reyndum að skoða Kronenborgarkastala en vorum of sein! Hér er opnunartíminn tekið mjög bókstaflega. Við fengum okkur svo kaffi í ótrúlega sætum bryggjubæ sem heitir Hornbæk og keyrðum sem leið lá til Gillelege þangað sem förinni var heitið. Við höfðum pantað hótel fyrir nóttina á á Baðhótelinu Helenekilde í bænum Tilsvildelege. Það er skemmst frá því að segja að við lentum í þriggja manna „brúðkaupsferð“ á þessu dásamlega hóteli. Set bara linkinn hér svo ég verði ekki of væmin í lýsingum mínum á staðnum. www.helenekilde.com Áttum semsagt indislegan tíma við strandir Kattegat. Vorum svo næsta dag að „dúlla okkur“ í nágrenninu og keyrðum við til Köben með viðkomu í Hilleröd þar sem við náðum að skoða Frederiksborgkastala á hlaupum 20 mín í lokun!! Við erum svo röskir íslendingar að við fórum létt með það, hehe. Vorum svo ekki alveg tilbúin fyrir Köben þegar við komum heim svo við tókum aukakrók til Dragör þar sem er gamall fiskibær með þeim pínuminnstu húsum sem ég hef nokkurn tíma séð.
Daginn eftir fór svo Tóti til Barcelona og við vinkonurnar vorum einar eftir í íbúðinni á Íslandsbryggju. Eftir að hafa kvatt kappann fórum við að hitta Stjána, Jan, Ebbu og Þorvarð á Nyhöfn. Þar var tekin smá hvítvínsdrykkja í sólinni sem loksins er komin! Fórum svo á hina einu og sönnu vínstofu hvar Nóbelsskáldið vandi komur sínar og leyfðum virðulegum þjónunum þar að „ala okkur upp“ með bros á vör! (Þeim fannst það ófært að allir væru að panta glös fyrir borðið sitt í hvoru lagi!) Höfðinginn Jan bauð okkur svo á frábæranum ítalskan restaurant og við glútrasystur enduðum í partíi hjá þeim Stjána fram á nótt.
Fimmtudaginn tók ég rólega heima enda orðin frekar þreytt (lesist þunn) eftir allt partístandið en Inga fór í bæinn að versla og ég hitti svo hana og Jóhönnu vinkonu okkar í eftirmiðdaginn. Jóhanna var með litla nýfædda hnoðrann sinn í vagninum og við sáum undir tjaldi í rigningunni og „gripum það sem hefur gerst síðan síðast“ Við fengum okkur kvöldmat í bænum og flúðum svo heim undir regnhlífinni.
Þá var tími okkar vinkvennanna hér í Köben senn á enda og síðasta daginn fylgdi ég Ingu um miðbæinn að klára síðustu innkaupin. Við fundum elstu myndlistabúð í Köben sem er ótrúlega sæt, allt afgreitt yfir borðið og innréttingarnar 100 ára og ég keypti vatnsliti og pappírsblokk! –Því fyrsta skipti síðan ég útskrifaðist finn ég hjá mér löngum til að fikta aftur við myndlist J Ég fór svo með Ingu að kveðja Agga og Huldu sem er sætust að springa úr óléttu! Við fórum svo á „Vegamót“ í Vesterbro og fengum okkur eitt rautt að lokum og ég fékk símtal þess efnis frá Reykjavík að búið sé að finna arftaka minn í Kraminu –svo líklega er ég að flytja hingað í alvörunni!!!!

No comments: