Thursday, August 23, 2007

Planið?

Já hvað er planið? Nú er eitt og hálft ár liðið síðan ég kom heim frá Spáni og eins og sjá má á síðustu skrifum hefur mér gengið mjög illa að aðlagast Íslandi á ný (hm ;-))
Ég hef aldrei skilið hvers vegna íslendingum finnst Ísland vera “Best í heimi” Hér er dimmur vetur 9 mánuði á ári og oftar en ekki skítaveður, hvort sem er að sumri eða vetri. Á sumrin er bjart allan sólarhringinn sem kostar mann svefnleysi og ótímabærar hrukkur í kringum augun.
Við þykjumst vera velferðarþjóðfélag en það er fjarri sanni. Á Spáni var ég spurð að því hvort við hefðum það ekki svakalega gott hér á Íslandi? Spyrjandinn hafði þá lesið einhversstaðar að við værum 4 ríkasta þjóð í heimi og fannst þetta rökrétt ályktun. Ég útskýrði fyrir honum að Ísland væri fremur kapítalískt þjóðfélag þar sem hinir ríku yrðu stöðugt ríkari en meginþorri fólks hefði það verulega skítt og næði ekki endum saman þrátt fyrir langan og strangan vinnudag og mikla yfirvinnu.
Það eru sumir sem vilja halda því fram að hér ríki velferð en að við séum bara of materíalísk og gerum of miklar kröfur! Ég veit ekki hvað eðlilegt viðmið er –auðvitað höfum við það betra en flestir í Afríku og megum vera þakklát fyrir það. Ég nenni ekki að byrja á einstæðu mæðra ræðunni og væla. En mér finnst einhvern veginn að í þjóðfélagi sem vill kalla sig velferðarþjóðfélag ættu ALLIR (líka öryrkjar og einstæðar mæður) að hafa efni á að borða hollan og næringarríkan mat, fara til læknis og svo ég tali nú ekki um lúxus eins og tannlækna! Ég er ekki að tala um lúxus eins og flatskjái og merkjavöru.
Bankakerfið er að mínu mati rekið af siðlausum glæpamönnum sem okra á þeim sem minnst mega sín með vöxtum og verðbótum sem teljast okurvextir í öllum hinum siðmenntaða heimi og flestir þeir sem eru með meðaltekjur eða undir þeim lifa í stöðugum vítahring yfirdráttar meðan bankastjórarnir svalla fyrir gróðann í laxveiðiám.
Svo verðlauna bankarnir “góðu viðskiptavinina” sem skulda ekki neitt en refsa þeim sem gefa þeim gróðann með því að borga vexti og vaxtavexti. Einhverju sinni var sagt um okkur íslendinga að við þyrðum ekki, gætum ekki og vildum ekki -og mér sýnist að við höfum ekkert þroskast síðan þá! Við erum allaf sömu kotbændurnir í hjartanu og látum allt yfir okkur ganga þegjandi og hljóðalaust. A.m.k. sé ég ekki margmenni hér á götum úti að mótmæla einu né neinu.
Það er þó margmenni á götum úti þessa dagana og það eru vesalings reykingamennirnir sem borga hundruð milljóna í ríkiskassann árlega fyrir ósiðinn. Það var íslendingum líkt að innleiða reykingabann með fasisma og ofsa og henda þeim sem minna mega sín í þeim málum útá götu á eins niðurlægjandi hátt og hugsast gat! Það má ekki reykja inni og ekki drekka úti! Ég bjó á Spáni þegar reykingabannið var innleitt þar og það var mun manneskjulegra.
Þetta reykingabann hér fyllti endanlega mælinn og nú er ég að flytja til gömlu höfuðborgarinnar. Þeir eru reyndar að vinna að slíku banni þar en eins og við er að búast af frændum okkar Dönum verða reglurnar manneskjulegri en hér.
Það hvarflar að mér að við ættum að biðja Dani að ættleiða okkur aftur? –eða fylgja þjóðarsálinni eins og hún er í raun og fá að verða 51. ríki Bandaríkjanna? Ég veit ekki með þessa sjálfstæðisbaráttu - mér sýnist við ekki alveg kunna fótum okkar forráð hér á landi??
Hvað um það, góðu fréttirnar eru þær að lögum samkvæmt get ég bara flutt til Danmerkur fengið mér kennitölu og orðið Dani! Ég veit ekki ennþá hvað ég ætla að gera það, ætli ég reyni ekki að nota þessa menntun sem ég verð að borga af það sem eftir er ævinnar og fá mér vinnu, þar sem vinnutíminn gerir ráð fyrir því að maður eigi líf og maður fær eitthvað sem nýtist manni fyrir skattana sem maður borgar?

3 comments:

Unknown said...

Jamm, drífðu þig bara hingað út. Ég fékk mér danska kennitölu í dag, tók svona 10 mínútur, ekkert vesen. Gott veður, mér líst vel á þetta. Komdu þér bara af stað!

Dimmalimm said...

Nei sko, ertu byrjuð að blogga aftur!

Ég var að tala við mann um daginn, ameríkana sem býr hér í LA en fer til Íslands á hverju ári. Hann sagði að honum fyndist Ísland amerískara en USA og kallaði það einmitt 51st state. Mér fannst það mjög fyndið því að ég kalla það Litlu Ameríku.

Ég er mjög spennt að vita hvað gerist hjá þér og hvernig þetta allt fer. Ennþá spenntari fyrir að fá þig í heimsókn... Krossum puttana.

Knús.

Unknown said...

Nýlendan er í smáveigis tilvistarkreppu en jafnar sig ábyggilega eins og þrælasalarnir í Danmörku jöfnuðu sig og seldu sitt maðkaða mjöl til annarra landa. Ísland er hávaxtaríki í dag vegna ákvarðanna einstaklinga sem vinna í Seðlabankanum (lesið Davíð). Sjálfsagt að mótmæla þeim, þ.a. bankar bera ekki ábyrgð á háum vöxtum.

Mínar fimm krónur (óverðtryggðar)

Kv Baldvin