Það er alltaf gott að leggja upp með góð áform! Ætlaði að blogga á hverjum degi en það hefur eitthvað lítið orðið úr því enda nóg að gera við að lesa blogg annarra íslendinga og fréttir þessa dagana! Það er svo mikið af frábæru fólki sem hefur svo margt til málanna að leggja. Í síðustu færslu kvartaði ég yfir dugleysi landa minna í mótmælum en sé ekki betur en fólk sé að vakna til lífsins!
Ég er alveg buin að fá uppí kok af ástandinu á Íslandi og ég bý ekki einu sinni þar! Kannski sér maður ástandið öðruvísi þegar maður fylgist með úr fjarska? Ég mundi vilja sjá byltingu á Íslandi, nýtt fólk við stjórn og róttækar breytingar. Alvöru velferðarþjóðfélag. Ég bjó á Spáni þegar "góðærið" var í hæstu hæðum og var oft spurð að því hvort við hefðum það ekki svo gott á Íslandi? Ég kannaðist ekki við það. Minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma náð endum saman um mánaðarmót þarna heima.
Hér í Danmörku er mögulegt að lifa af laununum sínum, það er alveg nýtt fyrir mér. Ég borga háa skatta hér en mér finnst ég vera að fá eitthvað fyrir peningana mína. Þeir sem eru með miklu hærri laun en ég borga ennþá hærri skatta. Mér finnst það vera réttlátt. Ég hef heyrt marga íslendinga óskapast úti þetta kerfi hér og kvarta yfir hátekjuskatti. Ég held að það sé þessi rótgróna minnimáttarkennd í íslendingum sem gerir það að verkum að við þurfum alltaf að vera meiri en næsti maður, erum aldrei ánægð nema við séum aðeins flottari og ríkari. Ég vona að þessi kreppa breyti hugarfari fólks. Það er nefnilega gott að vera jafn hinum. Það fylgir því mikil sálarró að vera ekki að rembast við að skara fram úr á einhvern hátt.
Ég er ekki alveg atvinnulaus lengur er komin með hlutastarf á elliheimili. Byrja í starfsþjálfun á morgun. Þetta er ekkert spennandi en a.m.k vinna. Það er kreppa hér líka og maður sér það helst á atvinnuauglýsingunum. Þegar ég kom hingað fyrir rúmu og var að leita að vinnu bættust við tugir nýrra starfa á atvinnuvefina daglega. Nú eru þetta nokkur störf á viku svo það er ekki um auðugan garð að gresja. Eins og heimurinn lítur út þessa dagana sýnist mér best að veðja á starf hjá hinu opinbera.
Það hefur allt breyst síðan ég kom hingað. Ég var óhamingjusöm á Íslandi og langaði í aðra tilveru.
Allt hefur sína kosti og galla og eftir árið eru gallar þess að búa erlendis orðnir mun ljósari. "En þá skall á kreppa..." og núna er ekkert vit í því að fara heim! Valkvíði hefur kannski verið eitt helsta lúxusvandamál minnar kynslóðar og á meðan ég vissi ekki í hvorn fótinn ég átti að stíga í valkvíða mínum var fótunum hreinlega kippt undan mér!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comment:
Mjög sammála. Ég held að valkvíði sé mikið vandamál hjá mörgu fólki. Það er svo margt í boði að maður fer að finnast grasið grænna á 100 mismunandi stöðum á sama tíma. Er að lesa "sjálfshjálparbók" núna sem er gegn öllum sjálfshjálparbókum. Snilldarbók þar sem bent er á hvernig við eigum það til að rugla saman "success" (í skilningnum að komast áfram í hinu og þessu) og hamingju.
Post a Comment