Monday, June 19, 2006

Skynsemi

Er skynsemi það sama og þunglyndi??? Eftir að hafa djammað viðstöðulaust í lengri tíma en ég kæri mig um að viðurkenna fékk ég þá flugu í höfuðið að það væri eitthvað að hjá fólki á fertugsaldri sem væri á æðisgengnum flótta undir grillábreiðu í leigubíl kl. 5 á föstudagsmorgni. 'Eg get ekki gefið skýringu á því hvað við vorum að gera undir þessu svarta sérsaumaða teppi en þríeykið taldi það nauðsyn að fara huldu höfði upp fimm hæðir í íbúðarblokk. Eitthvað gekk brösulega að samræma sex fætur á leið upp stiga og olli það nokkrum hlátrarsköllum sem ekki féllu í góðan jarðveg hjá nágrönnum vinar míns. Þessi ágæti vinur minn skilur ekki hvers vegna nágrönnunum er í nöp við hann? Mér reiknast svo til að svona háttalag hjá okkur vinunum hafi nú staðið í meira og minna 20 ár og seinna þennan ágæta föstudag fékk ég þá flugu í höfuðið nú væri komið nóg?
Ég er á sjálfu sér ekkert á móti skemmtunum. Alls ekki, allir ættu alltaf að vera að skemmta sér. En það læddist að mér sá illi grunur að e.t.v. væru bein tengsl á milli framtaksleysis í hinum ýmsu skapandi verkefnum sem eru mér mjög hugleikin og of mikillar gleði. Svo nú er ég ekki glöð lengur. Það hefur ekkert skemmtilegt gerst í 3 sólarhringa en ég búin að vera mjög dugleg!!!! Í kvöld byrjaði ég að lesa Samræður við Guð og er að hugsa um að ganga í sértrúarsöfnuð með tveim dönskum konum sem ég kynntist í flugvél. Ég get svo iljað mér við minningarnar um grillábreiðuna með tebollanum í kvöld.....

Saturday, June 17, 2006

Það rignir...

..og rignir rignir!!! Veit ekki alveg með þessi garðyrkjustörf lengur? Hef varla farið úr flísi og regngallanum alla vikuna! Maður verður undarlega rólegur í öllum þessum gráma. Engin seiðandi sumarsól með fyrirheitum um ævintýri handan við hornið. Bara jörðin og vaxandi tenging við hana sem e.t.v. er ekki af hinu slæma.
Símon bauð okkur vinkonunum í mat í gærkvöld. Það helliringdi en við ákváðum nú samt að taka áhættuna á því að drukkna og fórum með björgunarbát á næsta bar. Þar hitti ég fyrir bræður, máttarstólpa í íslensku myndlistalífi. Ræddum um himin og jörð og aðallega jörð og hvernig karmaður gæti riðið jörðinni í bókstaflegri merkingu, veit ekki alveg með þessa konseptlistamenn, er ennþá að reyna að sjá gjörninginn fyrir mér....

Monday, June 12, 2006

Ennþá andvaka...

Finna sér nýtt markmið, það hlýtur að vera málið. Þykist ætla að hætta að reykja í vikunni, það er markmið í sjálfu sér! Aldrei tekist hingað til en kannski allt í lagi að reyna af og til þó ekki nema vegna þess hvað það er gaman að byrja aftur ;-)
Veit ekki hvort ég vil verða myndlistarmaður, gott að velta því fyrir sér eftir margra ára nám í faginu. Þetta er þriðja menntunin sem ég næli mér í, þetta er svona viss útilokunaraðferð sem ég nota og ef LÍN biði uppá slíkt gæti ég verið að stunda hana það sem eftir er ævinnar... Nú lítur út fyrir að ég þurfi að ákveða hvað ég ætla að gera þegar ég er orðin stór. Kannski þess vegna sem ég er nánast flutt inn til foreldra minna. Gott að vera hér þegar maður vill ekki verða fullorðin!! (svo vinn ég líka í næstu götu svo það er styttra að fara á morgnana kl. 7:15!!!)
Ég er svo gott sem búin að ráða mig í vinnu á Íslandi næsta vetur. Ég verð víst seint ásökuð um að tolla illa í vinnu, er að hefja 10 starfsárið í Kraminu og er að hugsa um að taka þátt í vissum skipulagsbreytingum þar næsta vetur -sem eiginlega þýðir að ég fer í sama starf og ég var í þegar ég fór í skóla fyrir 7 árum.
Þetta er ekki alveg það sem ég hafði séð fyrir mér, var meira að hugsa um að flytja til Köben, fá mér hjól og lenda í ástarsambandi við ljóshærðan leikskólakennara. Eða fara til Berlínar í framhaldsnám og gerast pólitísk listakona.
En nú er það alvara lífsins. Það eina örugga í lífinu er yfirdrátturinn!! Langar líka að leyfa syni mínum að finna aðeins út hvað hann vill gera áður en ég sting af á vit ævintýranna og koma litla álfaverkefninu mínu lengra af stað.
Það sem ég skelfist mest er að ég ílengist!! Ég vil því biðja ykkur að gefa mér spark í rassinn ef ég fer að minnast á eitthvað af eftirfarandi;

1. Að kaupa bíl eða íbúð
2. Að kaupa eitthvað annað á afborgunum
3. Aukalífeyrissparnað
4. Karlmann sem hefur sér það til ágætis að vera skynsamlegt val eða vænn ráðahagur
5. Að ég tæki mig vel út með barnavagn
6. Kennsluréttindi
7. Að maður verði jú einhverntíma að FULLORÐNAST

Sniðugt...

...að leggja sig 3svar sama daginn og vera svo andvaka fyrir byrjun vinnuvikunnaar. Fólk hefur reyndar fengið stórbrotnar hugmyndir á andvökunóttum svo það er e.t.v.ekki með öllu slæmt. Verra að vera andvaka á "pyntingarbekknum" rúminu í gestaherbergi foreldra minna. Hvað var þetta með þessa gömlu svefnsófa, 70 cm á breidd með grjótharðri dýnu? Elur ekki af sér neinar góðar hugmyndir; í besti falli vandamálakrufningar. Niðurstaða krufnngarinnar er; of mikið vinnuálag í bland við eftirútskriftarþunglyndi. Hvað gerir maður þegar markmiðum er náð???

HVÍLD

Tók mér frí í allan dag! Búin að leggja mig, hlusta á Bach, og leggja mig aftur.
Kannski er sniðugt að halda hvíldardaginn heilagan svona af og til. Hitta sjálfa sig öðruvísi en á hlaupum og spyrja nokkurra krefjandi spurninga. Smá naflaskoðun og vangaveltur um framtíðina. Enginn sérstakur bömmer en þarf ekki eitthvað að fara að breytast hér? Er það tilgangur lífsins að djamma fram á morgun allar helgar? Það er gaman og ég er með harðsperrur af hlátri gærdagsins; Óbærilegur léttleiki...
Er þetta spurning um að fara í yoga eða ganga í sértrúarsöfnuð? Eða bara að fara að skapa sér verkefni sem eru það krefjandi og spennandi að maður tímir ekki að sóa tímanum í endalaust djamm? Gæti verið, maður verður jú að gera eitthvað við þetta BA próf í föndri?

Sunday, June 11, 2006

SmáSMjaður (sms)

Það er fátt ólíklegra til árangurs en að einsetja sér að eiga rólega helgi! Ég er nú afskaplega róleg í tíðinni og lítið gefin fyrir skemmtanir og vitleysu. Vil vakna snemma um helgar og njóta litlu hlutanna í lífinu; að lesa blaðið með kaffibollanum, fá mér göngutúr við Ægissíðuna og rótast eitthvað í garðinum. Það vill bara svo óheppilega til að ég á svo skemmtilega vini. Þannig leiddi eitt af öðru á föstudagskvöldið; eftir rólegheita rauðvínsglas og hugmyndafund féllst ég á að fá mér einn fyrir svefninn með Tóta vini mínum. Það endaði í dansi á einhverri ógæfubúllu í morgunsárið og gítar og söngskemmtun á Ingólfstorgi fram á næsta dag.
Taldi ég þá að ekki yrði úthaldið mikið í matarboðið sem til stóð í gærkvöldi. Mér tókst með naumindum að halda mér uppréttri til tvö og var á leið heim þegar ég rakst á þá félaga Tóta og Bjössa. Þeir voru líka á heimleið svo ég taldi mér óhætt í þeirra félagsskap. Skil ekki ennþá hvernig það tók okkur þrjár klukkustundir að komast frá Ölstofunni út á Mela? En það var mjög gaman á leiðinni.... Það eru forréttindi að eiga svona skemmtilega vini!!!

Róleg helgi!

Saturday, June 10, 2006

PS

Þvottavélinn er ennþá biluð!!!!

Brjálað að gera!

hef gert lítð annað en að vinna síðustu vikur! Vonast til að geta farið að sinna blogginu betur á næstu dögum! Var að skoða vefsíður vina minna úr skólanum og sé að bloggsíðan mín er mjög einföld. Þarf að plata besta bróður í heimi til að tæknivæða þessa síðu mína svo ég geti sett inn myndir og fleiri linka og annað áhugavert efni t.d. untitlegroup sem er nýjasta "listamannaklíkan" Annars margt að frétta...