Monday, September 15, 2008
Hinn rómantíski veruleiki
Þegar ég var unglingur var ég ákaflega rómantísk. Rómantíkin hefur þroskast af mér, ef svo má segja. Rómantískir draumar unglingsáranna myndu í dag flokkast sem ímyndanir um ”ímyndarsköpun”. Ég hefði átt að demba mér úti það fag, ímyndarsköpun strax á unglingsárunum, ég hefði orðið góð. Unglingurinn, ég, vildi bara vera sæt og smart og búa í fallega. Mér var slétt sama um réttindi manna og dýra, gróðurhúsaáhrif og allt annað sem skiptir máli. Vildi bara að þetta look-aði rétt. Ein af draumaíbúðunum mínum var í útlöndum. Í gömlu húsi, með stórum gluggum og háu lofti með rósettum. Og frístandandi baðkari með ljónslöppum. Það var alltaf klassík á fóninum (þetta var fyrir tíma geislaspilaranna) og ég var fátækur listmaður (sem hafði samt efni á flottri íbúð?) og stóð daglangt við trönurnar í stofunni og framleiddi meistaraverk án mikillar fyrirhafnar.
Það verður stöðugt kaldara í borg kaupmanna og það er ekki einu sinni kominn alvöru vetur.
Flesta daga er ég að heiman að vinna fyrir húsaleigu og námsskuldum svo ég veit minnst um það hvað það er kalt heima hjá mér. En núna um helgina setti ég klassík í spilarann og fór að reyna við málverkið. Ég veit ekki hversu vel ég lookaði þegar ég var komin í lopasokka og ullarpeysu undir vinnusloppinn, Önnur spöngin á gleraugunum mínum er dottin af og geisladiskarnir eru flestir rispaðir. Tæknin ræður ekki við það. Hvað meistaraverkið varðar hef ég skipt því út fyrir frambærilegt málverk... Helst eitthvað sem ég get selt svo ég geti oftar fyllt ljónslappabaðkerið með heitu vatni.... En draumar mínir hafa ræst!
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
No comments:
Post a Comment